„Tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir“. Um skáldskaparheim Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur

  • Soffía Auður Birgisdóttir
Efnisorð: Skáldskaparfræði, kynjafræði, líkaminn, kynverund kvenna, íslenskar samtímabókmenntir

Abstract

Í greininni er rýnt í höfundarverk Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur með sérstakri áherslu á skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins og önnur verk sem byggja á sjálfsævisögulegri reynslu höfundar. Verk Elísabetar fjalla mikið um kvenlíkamann, þrár hans og langanir, vanmátt og veikleika í ákveðnum aðstæðum. Skrif hennar um sjálfið, líkamann og kynverund kvenna hnitast um andstæðuna ást og höfnun. Þráin eftir ást og viðurkenningu er hið sterka afl sem knýr skrifin áfram og í skáldskaparheimi Elísabetar fer fram óvægin og djúp sjálfsskoðun. Þráin er nátengd kvenlíkamanum og kynorkunni og Elísabet glímir við spurninguna um ‚kveneðlið‘ og veltir fyrir sér hvað sé fólgið í því að vera ‚kona‘. Elísabet lýsir kvenlíkamanum í allri sinni nekt og varnarleysi og sýnir hvernig hann er vettvangurinn þar sem helstu átök sjálfsverunnar við sjálfa sig og aðra eiga sér stað. Þá stillir Elísabet gjarnan upp andstæðum heimum í verkum sínum. Í þeim takast á töfraheimur og raunveruleiki, heimur föður og heimur móður, heimur barns og fullorðins, heimur sálrænna erfiðleika og ‚heilbrigðis‘. Klofningur sjálfsins er þrálátt þema í skrifum Elísabetar, sem og baráttan við að halda sér réttu megin við „landamærin“ sem koma víða við sögu. Skrif Elísabetar lýsa baráttu fyrir því að marka sér stöðu í heiminum, til að heyrast og sjást, til að fá að skapa og um leið endurskapa sjálf sitt, þau eru leið hennar til að glíma við tilvistina og erfiðleika sem eiga rætur í bernsku. Skrifin eru útgönguleið og þau má skilgreina sem sjálfs-sálgreiningu og þerapíu. En í skrifum Elísabetar felst einnig persónuleg goðsagnasmíði sem hún tengir síðan baráttu kvenna fyrir sjálfssköpun, frelsi og samfélagslegu rými. Við greininguna á skrifum Elísabetar er leitað í smiðju ýmissa fræðikvenna, svo sem Simone de Beauvoir, Kate Millett og Hélène Cixous.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Soffía Auður Birgisdóttir

Fræðimaður við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði.

Útgefið
2019-06-14