Öðru sinni beinir Ritið sjónum að kynbundnu ofbeldi og sýnir sá fjöldi greina sem hér birtist hversu þörf og víðtæk sú umræða er. Í þessu hefti birtast alls átta greinar um efnið, þar af sex ritrýndar en þær óritrýndu eru þýðingar á textum tveggja skálda, þeirra Auðar Övu Ólafsdóttur og Nailu Zahan Ana, sem fluttir voru á ráðstefnu um sársauka árið 2017.  Ljóðið „Næturgestur“ eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur prýðir bæði forsíðuna og er birt í heftinu sjálfu. Ritrýndu greinarnar ber víða niður, í þeirri fyrstu fjalla kynjafræðingarnir Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir um birtingarmyndir nauðgunarmenningar á Íslandi. Fjórir textar eru eftir doktorsnema í bókmenntum, greinar þeirra Guðrúnar Steinþórsdóttur um Dísusögu, Kjartans Más Ómarssonar um ljóðabálk eftir Sjón, Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur um kvikmyndina Rökkur og Hauks Ingvarssonar um rithöfundinn Guðmund Daníelsson og áhrif Williams Faulkners á hann. Síðast en ekki síst birtist hér grein Dagnýjar Kristjánsdóttur bókmenntafræðings um sjálfsskaða.

Alls fjórar ritrýndar greinar falla utan þema. Grein Margrétar Guðmundsdóttur málfræðings fjallar um næmiskeið í máltöku og þar er reyndar, eins og í þemagreinunum, ofbeldi einnig til umfjöllunar þó ekki sé það kynbundið. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifar um skáldskaparheim Elísabetar K. Jökulsdóttur, Hjalti Hugason guðfræðingur birtir hér fyrri grein sína af tveimur um áhrif Lúthers og siðbótarinnar á Íslandi og að síðustu fjallar Bergljót S. Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur um samspil Tourette og ljóðlistar. Öllum textum heftisins eru gerð betri skil í inngangi ritstjóra, „fræ / í skál“.

Þemaritstjórar heftisins eru þær Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir eins og áður sagði ljóð Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur í grafískri hönnun Hrefnu Sigurðardóttur. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Ritið_Kápa_01_2019_11062019_II.jpg

Útgefið: 2019-06-14

Inngangur

Þýðingar