Áhrif siðbótarinnar á Íslandi. Tilraun til jafnvægisstillingar. Fyrri grein.

  • Hjalti Hugason
Efnisorð: Lúther, siðbót, siðaskipti, siðbreyting, þróun ríkisvalds, trúarlíf, kirkja

Abstract

Árið 2017 var þess minnst að 500 ár voru liðin frá upphafi lúthersku siðbótarinnar. Í tilefni af því urðu talsverðar umræður um hver áhrif siðbótin hafi haft á kirkju, menningu og samfélag. Í þessari grein og annarri sem á eftir fylgir verður glímt við þessa spurningu og þá sérstaklega miðað við íslenskar aðstæður.

Gengið er út frá að til að mögulegt sé að slá því föstu að breyting hafi orðið eða nýjung komið til sögunnar vegna lútherskra áhrifa þurfi að vera hægt að sýna fram á að siðbótin sé nauðsynleg forsenda breytingarinnar/nýjungarinnar sem fjallað er um hverju sinni, þ.e. að þróunin hefði ekki orðið án þess að siðbótin hafi átt sér stað. Í þessu sambandi er þó bent á að ýmsar breytingar sem hingað til hafa verið raktar til siðbótarinnar geti allt eins hafa orðið vegna þróunar hins miðstýrða ríkisvalds á árnýöld. Þá er bent á að vegna fámennis, strjálbýlis og einfaldrar þjóðfélagsgerðar hafi ýmsar breytingar sem urðu á þéttbýlli svæðum ekki náð fram að ganga hér fyrr en löngu eftir siðbót. Í slíkum tilvikum er rætt um tafin eða síðbúin lúthersk áhrif. Þá vill svo til hér á landi að ýmsar breytingar sem vel samræmdust hugarheimi siðbótarmanna náðu þó ekki fram að ganga fyrr en á 18. öld og þá vegna píetismans. Í slíkum tilvikum er rætt um afleidd lúthersk áhrif.

Hér er gert upp við tvær túlkunaralhæfingar sem mjög hafa gert vart við sig í íslenskri umræðu um áhrif lúthersku siðbótarinnar. Önnur leggur þunga áherslu á víðtækt og róttækt rof á fjölmörgum sviðum á siðbótartímanum og víðtæka hnignun
í kjölfarið sem rekja megi beint til siðbótarinnar en ekki annarra atburða, t.d. þróunar miðstýrðs ríkisvalds. Hin ætlar siðbótinni á hinn bóginn víðtæk, öflug og bein áhrif á nútímavæðingu bæði í kirkjunni og samfélaginu.

Í þessari grein er einkum grafist fyrir um áhrif siðbótarinnar á sviði trúar- og kirkjulífs. Þrátt fyrir að siðbótin hljóti vissulega að hafa haft hvað víðtækust og beinust áhrif á þessu sviði vekur athygli að sjálf kirkjustofnunin breyttist hverfandi í kjölfar
siðbótarinnar. Löngu eftir siðbótina hélst „presta-“, „embættis-“ og „stofnunar kirkjan“ sem Lúther hafði gagnrýnt svo mjög sem sé óröskuð hér á landi með öllum þeim margþættu afleiðingum sem það hafði og brutu margar hverjar mjög í bága við lútherskan kirkjuskilning.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Hjalti Hugason

Prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Útgefið
2019-06-14