„Nytsömust íslenzkra anda“. Æðarfuglinn, friðun hans og aðdragandi fyrstu fuglafriðunarlaganna
Abstract
Allt frá fyrstu öldum byggðar hér á landi hefur æðarfugl verið til mikilla nytja. Egg fuglsins hafa verið tekin alla tíð og veiðar á fuglinum voru stundaðar lengi framan af. Það var ekki fyrr en árið 1847 sem æðarfugl var friðaður fyrir allri veiði, fyrst allra fuglategunda. Friðun æðarfugls byggir reyndar á öðrum nytjum, nefnilega dúntekju, en frá 17. öld, eftir að Íslendingar lærðu að hreinsa dún, hefur æðardúnn verið verðmæt útflutningsvara. Í þessari grein er sjónum beint að nytjasambandi manns og æðarfugls út frá pósthúmanísku sjónarhorni. Horft er til þeirrar efnismenningar sem hefur skapast í gagnvirku sambandi manns og æðar. Fjallað er um tengsl æðarræktar og friðunar æðarfuglsins, sem og það fordæmi sem sett var með friðun fuglsins fyrir verndun fugla af öðrum tegundum. Með þessu er leidd í ljós sú gerendahæfni sem æðarfuglinn hefur haft við þróun fuglaverndar hér á landi. Í hnotskurn sýnir þetta dæmi hvernig gerendatengsl í samskiptum manna og náttúru eru til muna flóknari en oftast er álitið.