Myndaþáttur

  • Katla Kjartansdóttir

Abstract

Í eftirfarandi myndaþætti birtast fimm myndir eftir íslenska, breska, færeyska og danska listamenn. Myndir þeirra fjalla, hver með sínum hætti, um samband mannfólks og dýra. Fyrsta myndin er eftir danska ljósmyndarann Brian Berg og er af uppstoppuðum lunda í einkaeigu. Myndin er hluti af seríu sem ber heitið Hlutir í huga sem sýnd hefur verið í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og Norræna húsinu í Reykjavík. Myndaserían er hluti af þjóðfræðilegri viðtals- og vettvangsrannsókn Kötlu Kjartansdóttur og Kristins Schram á meðal Íslendinga í Danmörku. Eins og fram kemur í grein þeirra Flakk og framhaldslíf: lundar og hvítabirnir á mannöld hefur lundinn á síðustu árum öðlast margvíslega merkingarauka, meðal annars í tengslum við alþjóðlega ferðmennsku og umhverfismál. Uppstoppaðir lundar á heimilum fólks hafa hins vegar ef til vill aðra og hugsanlega mun persónulegri merkingu, líkt og
lundinn sem hér birtist.

Önnur myndin er eftir myndlistarkonuna Guðlaugu Gunnarsdóttur og er einnig hluti af stærri seríu myndverka. Í seríunni Kallar, sem unnin var á tímabilinu 2015 - 2018 eru portrettmyndir af fyrirmennum helstu tímabila Íslandssögunnar prentaðar á A4 blöð. Við tekur síðan „skurðaðgerð“ með kolum og krít þar sem viðkomandi andliti er umbreytt í dýr. Dýrið er valið eftir því hvað passar best við andlitsfall viðkomandi. Að lokinni aðgerð er „andlitið“ óþekkjanlegt, en öllu hefur verið umbreytt nema augum og klæðnaði. Hér er það virðulegur og nokkuð kankvís þvottabjörn sem birtist okkur í jakkafötum og með bindi.

Þriðja myndin er eftir þau Mark Wilson og Bryndísi Snæbjörnsdóttur. Myndin er úr myndaseríu af uppstoppuðum hvítabjörnum sem finna má í opinberum byggingum í Longyearbyen á Svalbarða. Sem dæmi má nefna barnaskólann, kirkjuna, spítalann, flugvallarbygginguna, sýslumannsskrifstofuna, sem og ýmsa veitingastaði og verslanir. Myndin er tekin af uppstillingu
á tælenska veitingastaðnum í bænum og er úr röð mynda sem ekki hafa verið birtar opinberlega áður. Umrædd myndasería er framhald af stærra verki eftir sömu höfunda um uppstoppaða ísbirni á Bretlandseyjum og ber heitið „nanoq: flat out and bluesome“ (2001-2006).

Á fjórðu myndinni birtist okkur forystusauðurinn Palli frá Hagalandi. Myndin er hluti af stærra verki Ólafar um íslenskt forystufé. Samband manna og dýra birtist víða í verkum Ólafar, sem einnig hefur tekið til umfjöllunar geirfuglinn og örlög hans. Rétt eins og álgeirfuglinn eftir Ólöfu, sem stendur í fjöruborðinu við Ægisíðuna í Reykjavík, vekur hrúturinn Palli upp margvíslegar spurningar sem snúa að sambandi manna og dýra og hvetur okkur til samtals, þvert á tegundir.

Fimmta og síðasta myndin er svo eftir færeyska myndlistarmanninn Edward Fuglø. Myndin sýnir tvo áhorfendur í færeyskri kringlu velta fyrir sér tilkomumiklu verki hans. Á færeysku ber verkið hið skemmtilega heiti Fuglaklóta, sem samkvæmt höfundi verksins þýðir einfaldlega fuglapláhneta. Eins og sjá má á myndunum tveimur, sem hér birtast í myndaþættinum og
á forsíðunni, er ansi hreint þröngt á þingi á þessari pláhnetu og virðist tæplega vera pláss fyrir alla þá fugla sem þarna eru saman komnir í einni þvögu. Líkt og margir greinahöfundar veltir verkið upp spurningum í tengslum við umhverfismálefni samtímans og er áminning um viðkvæmt sameiginlegt vistkerfi.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Katla Kjartansdóttir

Doktorsnemandi í safnafræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Útgefið
2020-05-08