Undanfarin ár hefur áherslan í hug- og félagsvísindum orðið æ meir á svið tilfinninga. Hefur þetta verið nefnt „tilfinningabeygjan“ í akademískum rannsóknum (e. emotional turn). Þema þessa heftis eru tilfinningar sem kenndar er við rómantíska eða kynferðislega ást eins og hún birtist í ríkjandi orðræðu og/eða andófi gegn henni í sögulegu og samtímalegu samhengi. Heftið er ekki síst hugsað til að vekja upp þetta unga rannsóknarsvið hérlendis, en í raun má segja að það hafi ekki enn almennilega numið land þótt einn af frumkvöðlunum sé íslensk fræðikona. Greinarnar innan þema eru sex talsins. Fyrstu tvær greinarnar lýsa hinum viðtekna félagslega veruleika út frá samtímagögnum. Brynhildur Björnsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir fjalla um hugmyndina um rómantíska ást eins og hún birtist í vestrænni menningu frá því á fyrri hluta tuttugustu aldar og til okkar daga. Berglind Rós Magnúsdóttir gerir grein fyrir niðurstöðum eigindlegra rannsókna hennar á tilhugalífi gagnkynhneigðra kvenna sem hafa áður verið í langvarandi sambandi. Torfi H. Tulinius og Hlynur Helgason horfa til samtímalistamanna og hvernig þeir túlka ástina á ólíkan hátt. Grein Torfa rýnir í karllægan veruleika í samtímanum út frá skáldsögum Michel Houllebecq. Hlynur tekur til umfjöllunar verk íslenskrar myndlistarkonu, Kristínar Gunnlaugsdóttur, en á miðjum ferli verður athyglisverð breyting á fagurfræði hennar, þar sem áferðarfalleg verk í helgimyndastíl víkja fyrir mun grófari og kaldhæðnari verkum. Íris Ellenberger rannsakar sendibréf milli kennara Kvennaskólans í Reykjavík frá því um aldamótin 1900, en sum þeirra bera vott um sterkan ástarhug milli kvenna. Loks fjallar Sólveig Anna Bóasdóttir um umræður guðfræðinga um samkynhneigðar ástir yfir tveggja alda tímabil og baráttunni fyrir viðurkenningu kirkjunnar á þeim, bæði erlendis og hérlendis.
Við þökkum öllum höfundum fyrir að hafa hlýtt greinakalli okkar. Mun fleiri sýndu þemanu áhuga og er líklegt að margir þeirra munu fylgja því eftir og birta greinar á öðrum vettvangi. Ástin er merkilegt viðfangsefni, ekki síst þegar hún er sett í sögulegt og félagslegt samhengi. Við erum sannfærð um að ástarrannsóknir eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum og hvetjum lesendur ritsins til að fylgjast grannt með.
Greinar utan þema eru að þessu sinni tvær. Fyrri greinin er á sviði heimspeki og er eftir Gunnar Harðarson. Í stað þess að halda því fram að Descartes sé fulltrúi þess sjónarmiðs að maðurinn sé hrein hugsandi vera, óháð líkamanum, eins og margir hafa gert, kýs Gunnar að kynna til sögunnar andstæðan lestur á Descartes þar sem hin líkamlega vídd er í fyrirrúmi. Seinni greinin er eftir Hjalta Hugason en hún fjallar um breytta stöðu þjóðkirkjunnar í ljósi sögunnar.
Gestaritstjórar heftisins eru Berglind Rós Magnúsdóttir og Torfi H. Tulinius en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkarlestur.