Ritið_Kápa_01_20231.png

Þema Ritsins er að þessu sinni helgað rannsóknum á illsku og óhugnaði. Illskan er fylgifiskur ofbeldis af öllu tagi en í sumum tilvikum er hún augljós, eins og þegar um líkamlegt ofbeldi er að ræða, en í öðrum aðstæðum getur hún verið lúmsk og er þá jafnvel erfitt að henda reiður á henni. Hún tengist valdbeitingu sterkum böndum og er gjarnan sögð andstæða samlíðunar ekki síst þegar hún er tengd hryllilegum atburðum eða tilteknum gjörðum einstaklinga. Illska er sívinsælt viðfangsefni listamanna eins og kemur glögglega fram í þessu hefti.

Undir hatti þemans birtast þrjár ritrýndar greinar sem eiga það sameiginlegt að fjalla um illsku og óhugnað í íslenskum samtímabókmenntum. Vera Knútsdóttir greinir skáldsögurnar Hvítfeld: fjölskyldusaga (2012) eftir Kristínu Eiríksdóttur og Ég man þig (2010) eftir Yrsu Sigurðardóttur og dregur fram hvernig skáldkonurnar beita fagurfræði hins ókennilega til að takast á við atburði fjármálahrunsins árið 2008. Sunna Dís Jensdóttir skoðar aftur á móti hvernig gotnesk skáldskapareinkenni í skáldsögunni Börnin í Húmdölum (2004) eftir Jökul Valsson eru notuð til að miðla óhugnaði og varpa ljósi á ýmis falin samfélagsmein, ekki síst vanrækslu og ofbeldi á börnum. Þá fjallar Marteinn Knaran Ómarsson um raðmorðingja einkum með hliðsjón af glæpasögunni Kóperníku (2021) eftir Sölva Björn Sigurðsson. Marteinn Knaran ræðir algengar hugmyndir fólks um persónugerð raðmorðingja og sýnir hvernig Sölvi Björn vinnur með þær í skáldsögu sinni um leið og hann snýr út úr þeim.

Í heftinu birtist einnig óritrýnd grein eftir Steindór J. Erlingsson. Hann hefur háð baráttu við erfitt þunglyndi um árabil en eins og kemur fram í grein hans rekur hann veikindi sín til illskunnar sem hann varð vitni að sem ungur maður í Eþíópíu. Í skrifum sínum fjallar Steindór á næman hátt um veikindi sín og dregur fram hvaða gildi skáldskapur getur haft til að takast á við vanlíðan. Innan þemans má jafnframt finna þrjá pistla eftir Arnfríði Guðmundsdóttur, Ármann Jakobsson og Sigríði Þorgeirsdóttur en hvert og eitt þeirra fjallar um illsku út frá sínu sérsviði; guðfræði, miðaldabókmenntum og heimspeki. Þá birtist líka þýðing Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur á bókarkaflanum „Samlíðan og samkennd“ eftir sálfræðiprófessorinn Paul Bloom. Þýðingunni fylgir greinargóður inngangur Öldu Bjarkar þar sem hún fjallar um rannsóknir Bloom á hugarstarfsemi, siðferði og tilfinningum.

Tvær greinar falla utan þema. Hjalti Hugason fjallar um birtingarmyndir dauðans og trúarinnar í ljóðheimi Hannesar Péturssonar á meðan að Finnur Dellsén tekst á við spurninguna: „Fyrir hverja eru fræðin?“ með aðferðum heimspekinnar.

Ritstjóri heftisins er Guðrún Steinþórsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Þránd Þórarinsson.

Útgefið: 2023-06-13