Valið hefti

Númer 1 (2024): Ritið: 1/2024. Nýjar rannsóknir í vinnusögu

Ritið_Kápa_01_2024.png

Þema Ritsins er að þessu sinni helgað nýjum rannsóknum í vinnusögu. Rannsóknir á sögu vinnu og vinnandi fólks hafa á undanförnum árum tekið miklum breytingum. Með nýjum sjónarhornum, aðferðum, hugtökum og kenningum hafa sagnfræðingar horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í því sem á íslensku hefur til skamms tíma verið kallað verkalýðssaga, en mætti líka kalla vinnusaga, sbr. enskan labour history. Undir áhrifum frá kvenna- og kynjasögu, póstkólóníal menningarsögu og hnattrænni sögu (e. global history) hefur sjónum í auknum mæli verið beint að gagnvirku sambandi ólíkra vinnutengsla og því hve vinnusaga er samofin sögu annarra valdakerfa.

Í heftinu birtast fimm ritrýndar greinar sem falla undir þetta þema. Már Jónsson fjallar um tilurð tilskipunar um lausamenn árið 1783. Þar ræðir hann um fjölda, hlutverk og stöðu lausamanna, það er að segja verkafólks sem starfaði á eigin vegum og réði sér sjálft, á 18. öld og greinir umræðu samtímamanna sem og sagnfræðinga um þennan oft misskilda hóp í atvinnulífi íslenska landbúnaðarsamfélagsins. Dalrún Kaldakvísl á tvær greinar í heftinu. Önnur fjallar um breytingar sem urðu á sjálfsvitund og ímynd hákarlaveiðimanna eftir því sem samfélag og efnahagslíf Íslendinga þróaðist úr landbúnaðarsamfélagi 19. aldar í iðnvætt nútímasamfélag sem og sambandi veiðimannanna við hafið og og skepnuna sem þeir sóttust eftir samhliða vél- og tæknivæðingu sjávarútvegs. Hin grein Dalrúnar fjallar um störf, vinnuaðstæður og þjóðfélagsstöðu ráðskvenna í sveit á seinni helmingi 20. aldar og byggir á umfangsmiklum viðtalsrannsóknum höfundar. Njörður Sigurjónsson fjallar í sinni grein um stjórnunarkenningar Guðmundar Finnbogasonar (1873‒1944), heimspekings og sálfræðings, og hugmyndir hans um vinnuvísindi í byrjun 20. aldar. Loks skrifar Harpa Rún Ásmundsdóttir um fyrirhugaðan brottrekstur hreppsnefndar Súðavíkurhrepps á ólöglegu hús- og þurrabúðarfólki árið 1885 og viðbrögð fólksins við þeim fyrirætlunum.

Auk ritrýndu greinanna birtist í heftinu þýdd grein eftir sagnfræðingana Christian G. De Vito, Juliane Schiel og Matthias van Rossum um viðleitni fræðimanna á sviði vinnusögu á undanförnum árum til að vinda ofan af áhrifum vestræns nútíma á vinnusögu og yfirstíga rótgróin andstæðupör innan vinnusögunnar í því skyni að bregðast við áskorunum samtímans.

Tvær greinar heftisins falla utan þema. Hólmfríður fjallar um táknmálstúlkun og áhrif undirbúnings á gæði táknmálstúlkunar á meðan að Kristín Loftsdóttir beinir sjónum að Kanaríeyjum og veltir fyrir sér hvers vegna Íslendingar ferðist þangað og hvernig þeir líti á sig í því þverþjóðlega samfélagi sem þar er að finna.

Ritstjórar þemahluta heftisins eru Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, og Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands en aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðuna prýðir ljósmynd Lárusar Óla Kristins Magnússonar (1921‒2012) af ónefndri ráðskonu við störf í eldhúsi vegavinnuskúrs um miðbik 20. aldar. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur.

Útgefið: 2024-04-29
View All Issues