Valið hefti

Númer 2 (2024): Ritið: 2/2024. Rauðar Heimsbókmenntir

Ritið_Kápa_02_2024.jpg

Þema Ritsins að þessu sinni er rauðar heimsbókmenntir. Í brennidepli er umfangsmikil útgáfustarfsemi róttækra vinstrihreyfinga á tuttugustu öld og viðleitni þeirra til að móta og byggja upp annars konar heimsbókmenntir hins alþjóðlega öreigalýðs, í mótstöðu við sígildar heimsbókmenntir borgarastéttarinnar. Innan þess heimsbókmenntakerfis sem tók á sig mynd með þverþjóðlegri starfsemi Kominterns eða Þriðja alþjóðasambandsins á árunum 1919–1943 komu fram margbrotin bókmenntaform, sem varpað er ljósi á í þeim greinum sem hér birtast, en einnig er sjónum þar beint að framhaldslífi og birtingarmyndum rauðra heimsbókmennta á síðari tímabilum.

Sjö fræðilegar greinar eru helgaðar þessu þema. Anna Björk Einarsdóttir fjallar um öreigaskáldsögu millistríðsáranna með hliðsjón af ólíkum en þó skyldum verkum íslenskra, norrænna, bandarískra og rómansk-amerískra bókmennta. Ericka Beckman fjallar um skrif perúska rithöfundarins Josés Marías Arguedas og tengsl þeirra við hið rauða heimsbókmenntakerfi. Nicklas Freisleben Lund og Magnus Nilsson beina sjónum að norrænum verkalýðsbókmenntum og því hlutverki sem staðbundnar hefðir verkalýðsbókmennta gegndu í gagnrýninni afstöðu norrænna höfunda til hefðar sósíalíska raunsæisins. Christoph Schaub fjallar um bókmenntagrein vettvangsfrásagnarinnar (þ. Reportage) með hliðsjón af verkum þýska rithöfundarins Egons Erwins Kisch frá þriðja áratugnum og skrifum sósíalíska femínistans Marianne Herzog frá áttunda áratugnum. Jonas Bokelmann beinir sjónum að verkum þýska rithöfundarins og róttæklingsins Alberts Daudistels og fjallar um sautján ára útlegð hans á Íslandi. Grein Benedikts Hjartarsonar hefur að geyma kortlagningu á umfangsmikilli þýðingaútgáfu vinstrihreyfingarinnar hér á landi á starfstíma Kominterns, en einnig er hugað að útbreiðslu heimsbókmenntahugtaksins á tímabilinu og alþjóðlegu samhengi þessarar þýðingastarfsemi. Loks beinir Haukur Ingvarsson sjónum að skáldsögunni The Jungle eftir Upton Sinclair og viðtökusögu hennar hérlendis á þeim tíma þegar vinstrihreyfingin var að taka á sig mynd.

Í þýðingahluta heftisins birtast að þessu sinni textar tveggja höfunda. Annars vegar má þar finna grein Robertos Schwarz um heimsbókmenntir útnárans frá árinu 1977, þar sem brasilíski bókmenntafræðingurinn beinir sjónum að misgengri þróun og hugmyndum úr stað. Hins vegar birtast þar fjórir textar frá þriðja áratugnum eftir þýska rithöfundinn og róttæklinginn Franz Jung, auk textans „Hinn nýi maður í nýju Rússlandi“ eru þar teknir saman þrír styttri textar undir yfirskriftinni „Sagnalist öreiganna“.

Tvær greinar heftisins liggja utan þema og eru þær báðar helgaðar kvikmyndum. Sjöfn Asare fjallar um kvikmyndina The Whale frá árinu 2022 og leitast við að greina birtingarmynd hins feita, samkynhneigða og hvíta sískynja karlmanns í verkinu. Björn Þór Vilhjálmsson beinir aftur á móti athyglinni að barnamyndum og lítt þekktum kvikmyndaumsvifum Ásgeirs Long og Valgarðs Runólfssonar á sjötta áratugnum.

Ritstjórar þemahluta heftisins eru Anna Björk Einarsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði við NTNU-háskólann í Þrándheimi, og Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands. Aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir. Landakortið sem prýðir forsíðu þessa heftis á upptök sín í útgáfustarfsemi róttæku vinstrihreyfingarinnar hér á landi, en kortið birtist upphaflega á forsíðu tímaritsins Sovétvinarins í septembermánuði 1935. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og prófarkalestur var í höndum Dagbjartar Guðmundsdóttur.

Útgefið: 2024-09-27

Inngangur

  • Anna Björk Einarsdóttir, Benedikt Hjartarson, Guðrún Steinþórsdóttir
    1-11
View All Issues