Valið hefti

Númer 2 (2025): Ritið:2/2025. Læknahugvísindi

cover_issue_25_is_IS.jpgÞetta þemahefti Ritsins er helgað læknahugvísindum (e. medical humanites). Þau fræði sækja bæði til líf- og hugvísinda og er ætlað að stuðla að einstaklingsmiðaðri nálgun í heilbrigðisvísindum, efla þekkingu á fjölbreytileika manneskjunnar og auka skilning á tilfinningum sjúklinga og aðstæðum þeirra. Þá er þeim jafnframt ætlað að liðka samskipti lækna og sjúklinga, auka samlíðun heilbrigðisstarfsfólks með skjólstæðingum og dýpka skilning á frásögnum af veikindum og lækningum. Á undanförnum árum hefur fræðileg umfjöllun um læknahugvísindi vaxið jafnt og þétt, bæði innan læknisfræðinnar sjálfrar og í greinum á borð við bókmenntafræði, heimspeki, siðfræði, fötlunarfræði og menningarfræði. Rannsóknir hafa meðal annars beinst að því að kanna hvernig frásagnir, lestur og ritun geta haft áhrif á fagmennsku, samlíðan og siðferði heilbrigðisstarfsfólks. Þá hefur verið skoðað hvernig hugvísindaleg nálgun getur dýpkað skilning á veikindum, áföllum, sársauka og þjáningu og eins dregið fram hvernig hún getur styrkt samskipti í klínísku samhengi. Þetta hefti Ritsins samanstendur af sjö ritrýndum fræðigreinum, tveimur esseyjum, þremur ljóðum og einni þýðingu sem vitna samanlagt um fjölbreyttar áherslur innan læknahugvísinda.

Guðrún Steinþórsdóttir fjallar um samlíðan sem grundvallarþátt í mannlegum samskiptum í heilbrigðisþjónustu og hvernig lestur og greining bókmenntatexta getur veitt læknum og læknanemum innsýn í tilfinningalíf sjúklinga og þjálfað þá í að greina og bregðast við ólíkum birtingarmyndum þjáningar.

Tengsl ævintýra við myrkur og vetur er umfjöllunarefni Aðalheiðar Guðmundsdóttur en rannsókn hennar leiðir í ljós að myrkrið gegnir lykilhlutverki í íslenskum ævintýrum, ekki einungis sé það eitt af því sem kalla megi staðbundin einkenni þeirra, heldur jafnframt sá þáttur sem kallar – formgerðarinnar vegna – á andstæðu sína, ljósið eða vonina.

Ingibjörg Eyþórsdóttir ræðir hvernig skáldskapurinn getur reynst aðferð til að lifa af erfiðar aðstæður með hliðsjón af sagnadönsum og hvernig líta megi á flutning þeirra sem eins konar kaþarsis fyrir konur sem höfðu jafnvel þurft að sæta ofbeldi.

Sveinn Yngvi Egilsson beinir sjónum að birtingarmyndum berkla í skáldskap en hann fjallar einkum um ljóð eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson, Stefán frá Hvítadal og Guðfinnu frá Hömrum sem öll dóu úr berklum. Þá gerir hann jafnframt grein fyrir þeim hugmyndaklasa sem tengist sjúkdómum eins og berklum á 19. og 20. öld enda skiptir hann máli fyrir skilning á ljóðagerðinni.

Guðrún Steinþórsdóttir fjallar um sorg, missi og sorgarúrvinnslu með tilliti til skáldsögunnar BÓL eftir Steinunni Sigurðardóttur en í því skyni beinir hún sjónum að ástarsorg aðalpersónunnar, ástvinamissi hennar og sorginni sem vaknar vegna loftslagsvár og náttúruhamfara.

Nanna Hlín Halldórsdóttir fjallar um viðtalsrannsókn sína við þrettán ME sjúklinga um upplifun þeirra af þreytu, veikindum og hvernig það sé að lifa með ME á Íslandi í dag. Til þess að útskýra flókna stöðu þessa sjúklingahóps gerir Nanna Hlín grein fyrir viðtökusögu ME og síþreytu á Íslandi sem og hugvísindalegum heimildum um þreytu.

Meginmarkmið greinar Ástríðar Stefánsdóttur og Kristínar Björnsdóttur er að greina og skoða hvort íslensku verklagsreglurnar við forgangsröðun á gjörgæslu í gjörgæslu í COVID-19 hafi verið hlutdrægar gagnvart fötluðu fólki. Umfjöllun þeirra byggir á viðtalsgögnum úr rannsókninni Fötlun á tímum faraldurs auk þess sem þær nýta sér opinber skrif og ummæli fatlaðs fólks um faraldurinn.

Í esseyjunni „Gott að eldast?“ fjallar Dagný Kristjánsdóttir um móður sína, sem veiktist af Alzheimer-sjúkdómnum, og samband þeirra. Hún ræðir sérstaklega hlutverk aðstandenda fólks sem missir minnið og um leið hvernig viðmóti sjúklingar með heilahrörnun og aðstandendur þeirra geta mætt í skiptum við heilbrigðisstéttina.  

Persónuleg reynsla er einnig til umfjöllunar í esseyju Ásdísar Káradóttur. Þar ræðir hún upplifun sína af því að greinast með krabbamein og hvernig bókmenntir og kvikmyndir hafa verið henni sem ferðalangar í gegnum lífsreynsluna og veitt henni félagsskap, hvatningu og þrek til að halda lífinu áfram en einnig vakið hjá henni gagnrýna hugsun varðandi það hvernig rætt er öðruvísi um krabbamein en aðra sjúkdóma.

Skáldkonan Didda birtir þrjú ljóð í heftinu sem fjalla um persónulega reynslu hennar af áfalli og hvernig hún hefur tekist á við sársaukann sem því fylgdi.

Heftinu lýkur með þýðingu Jóns Bjarna Atlasonar á textanum „Heilinn. Minnisblað“ eftir Max Frisch sem fjallar um minnistap og hrörnun heilans. Þýðingunni fylgir góður formáli Jóns Bjarna.

Ritstjórar þessa þemaheftis eru Guðrún Steinþórsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Fridu Kahlo

Útgefið: 2025-09-30
View All Issues