Valið hefti

Í þessu hefti Ritsins birtast tíu fjölbreyttar greinar á sviði hugvísinda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason og Hafsteinn Þór Hauksson fjalla um þverfaglegar rannsóknir á sambandi laga og bókmennta en þau taka einkum til skoðunar skáldsöguna Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og draga fram hvernig nýta megi verkið sem lesefni í laganámi.
Marteinn Sindri Jónsson og Davíð G. Kristinsson skoða gagnrýni valinna listamanna á stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda við síðustu aldamót í greininni „Andóf og innlimun“. Við greiningu sína styðjast þeir við kenningu frönsku félagsfræðinganna Lucs Boltanski og Ève Chiapello um gagnrýni listamannsins á kapítalismann en að auki ræða þeir skörun gagnrýni listamannsins, vistrænnar gagnrýni, auðgunarhagkerfisins og náttúruhverfrar þjóðernishyggju.
Í greininni, „„Það er sjálfbærni í þessu öllu““, fjalla Bergsveinn Þórsson og Njörður Sigurjónsson um hvernig fjórar íslenskar menningarstofnanir – Ríkisútvarpið, Harpa, Listahátíð í Reykjavík og Kvikmyndamiðstöð Íslands – hafa mótað og innleitt umhverfis- og sjálfbærnistefnur í starfsemi sinni.
Ingunn Hreinberg Indriðadóttir skrifar um hættulega málfarsumræðu í fjórðu grein heftisins. Hún beinir meðal annars sjónum að mörkum málfarsumræðu og hatursorðræðu og ræðir hvað gerist þegar mengi þeirra skarast.
Sigríður Ólafsdóttir og Berglind Hulda Theodórsdóttir gera grein fyrir niðurstöðum könnunar á viðhorfum nemenda og reynslu af samræðum og ritun sem og þróun ritunarfærni þeirra yfir eitt skólaár.
Jón Ásgeir Kalmansson fjallar um merkingu þess að verða „eins og barn“ eða verða „barn í annað sinn“ í samhengi við hugmyndir um mannlegan þroska og ræðir í því skyni þrjú þemu – auðmýkt, undrun og leik – sem hafa verið tengd æskunni og því að fullorðnast.
Í heftinu birtast þrjár greinar á sviði kvikmyndafræða. Björn Þór Vilhjálmsson fjallar um áhrif streymisveita á hvernig kvikmyndum er dreift í heiminum og veltir hann meðal annars vöngum yfir stöðu íslenska kvikmyndaarfsins. Eyrún Lóa Eiríksdóttir gerir aftur á móti hina vinsælu sjónvarpsþáttaseríu The Crown að viðfangsefni sínu í greininni „„Já, ég er drottning en ég er líka kona… og eiginkona!““. Hún ræðir sérstaklega birtingarmynd Elísabetar II sem sögupersónu í þáttunum og gerir tilraun til að bera kennsl á þá undirliggjandi póstfemínísku þræði sem eru ráðandi í persónusköpun hennar og færir rök fyrir því hvernig þessar áherslur endurspegla nútímakröfur til kvenna. Þá er þáttaröðin Black Mirror til umræðu í grein Helgu Jónsdóttur, „Ögun augans“, en þar beinir hún einkum sjónum að þættinum „Nosedive“ þar sem gefur að líta framandi náframtíð sem þó hefur beinar skírskotanir í veruleika áhorfandans og tækniumhverfi líðandi stundar.
Heftinu lýkur með grein Helgu Kress um skáldskap Drífu Viðar. Helga skoðar sjálfsmyndir í skáldsögunni Fjalldalslilju og smásagnasafninu Dagar við vatnið en beinir jafnframt sjónum að viðtökum verkanna og áhrifum Drífu á aðra listamenn.
Ritstjóri þessa heftis er Guðrún Steinþórsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið sem prýðir kápu Ritsins er eftir Kristínu Ómarsdóttur.